Markmið sérkennslunnar er að ýta undir sjálfstæði, vellíðan og alhliða þroska barns.

Áhersla er lögð á að vinna sem mest með börnunum í þeirra hóp, en einnig í smærri hópum. Rödd hvers barns á að fá að njóta sín og eiga þau að fá tækifæri til að koma sínum málum á framfæri, læra að taka tillit til og treysta og virða skoðanir annarra barna. Samskipti á grundvelli vináttu og virk þátttaka í eigin námi er forsenda fyrir því að barn læri. Áhersla er því lögð á að virkja mismunandi tjáningarform barna og að skapa aðstöðu til að barnið geti þroskast sem best á eigin forsendum.

Þegar grunur vaknar um að barn þarfnist sérkennslu fer ákveðið ferli í gang innan leikskólans.

Unnið er náið með foreldrum og sérkennslufulltrúum leikskólaskrifstofu en þar starfa sérfræðingar á helstu þroskasviðunum. Þurfi þroskamat, hreyfiþroskamat eða málþroskamat að fara fram koma sérfræðingarnir inn í leikskólann. Í framhaldi eru  haldnir skila- og samráðsfundir með foreldrum. Gerðar eru einstaklingsnámskrár fyrir öll börn sem þurfa á sérkennslu að halda. Áhersla er lögð á að draga fram styrkleika barnsins og eru markmið sett út frá getu barnsins og færni þess nýtt til að bæta upp færni á öðrum þroskasviðum.

 

Starfsreglur um sérkennslu í leikskólum Kópavogs


 Samkvæmt starfsreglum um sérkennslu í leikskólum Kópavogs eiga leikskóladeildir rétt á ákveðnum fjölda sérkennslustunda vegna barna með sérþarfir í samræmi við þroska og færni þeirra. Viðmiðunarregla, sem skoðast þó í hverju tilviki fyrir sig, er að börn með þroskatölu undir 70 falla í 1. flokk, þau sem eru á milli 70 og 80 falla í 2. flokk. Sérkennslufulltrúi úthlutar stundum vegna 1. og 2. flokks og er fjöldi stunda nú frá 2-8 klst. á dag á barn. Öll börn sem falla undir þessa flokka fá sérkennslu. Stundum vegna barna í 3. og 4. flokki er úthlutað eftir fjölda rýma í hverjum leikskóla. Þannig er í minnstu skólunum gert ráð fyrir 8 stundum og í stærstu skólunum 16 stundum á dag. Í hverjum leikskóla starfar sérkennslustjóri og er viðbótarstöðugildi vegna hans 0.12– 0.25 stg. eftir stærð skóla. Stundum er úthlutað skv. 5 af leikskólaráðgjafa og sérkennslufulltrúa tímabundið vegna erfiðleika á deild. Þessi flokkur er lítið notaður, yfirleitt um 4 stundir á dag.

 Þörf á sérkennslu hefur farið ört vaxandi síðustu ár, m.a. vegna tilkomu heildtækar skólastefnu, áherslum á snemmtæka íhlutun og fjölgun barna af erlendum uppruna. Þá fjölgar börnum sem eru með einhverfu eða einhverfueinkenni svo og öðrum þroskaröskunum. Sérkennslan fer í langflestum tilvikum fram í barnahópnum og leikaðstæður og umhverfið aðlagað að þörfum viðkomandi barns. Þannig að það geti tekið virkan þátt í leik og öðru starfi sem fram fer í leikskólanum. Í einstaka tilfellum, ef um sértækar fatlanir er að ræða, er þörf á tímabundinni einstaklingskennslu. Starfsfólk sem sinnir sérkennslu er ráðið inn á deild. Það gefur fleiri möguleika til að minnka barnahópinn og hafa fleira starfsfólk til að mæta þörfum þeirra barna er þurfa sérúrræði, t.d. hópavinnu og fleira. Í 1. og 2. flokki eru starfsmenn ráðnir tímabundið til að sinna sérþörfum einstakra barna, þó alltaf undir stjórn deildarstjóra. Í öllum tilvikum er hér um að ræða börn með mjög sértækar fatlanir sem kalla á sérstaka eftirfylgd og hagræðingu til að þau fái notið leikskóladvalar sinnar.


Ýmsir tenglar


Tákn með tali

Greiningar og ráðgjafastöð ríkisins

ADHD - samtökin

Umsjónarfélag einhverfra

Um sérkennslu