Um uppeldisstarf Reggio Emilia á Ítalíu 

Sagan: Heimstyrjöldinni lauk en Evrópa var í sárum. Efnahagskerfið var rjúkandi rúst, en þótt jörðin væri sviðin tóku jurtir að blómstra þar sem andinn reyndist efninu yfirsterkari. Ítalskar mæður í Reggio Emilia hófu að byggja börnum sínum leikskóla þar sem þær höfðu áhyggjur af framtíð barna sinna. Til að hlúa að velferð barnanna réðust þær í þetta stóra verkefni. Íbúarnir aðstoðuðu þær við byggingu skólans rétt utan við Reggio Emilia í Villa Cella. Einkunnarorð skólans var „aldrei framar fasismi“. Upphafleg stefna skólans grundvallast af þessum orðum og hugmyndafræði Reggio Emilia byggist á þessum orðum ennþá dag í dag, s.s. lýðræði framar öllu. Fyrsti foreldrarekni leikskólinn hét „XXV Aprile“, hann er upphafið að öllum þeim skólum sem fylgdu í kjölfarið.

Loris Malaguzzi (1920-1994):

Upphafsmaðurinn að baki því uppeldisstarfi sem kennt er við borgina Reggio Emilia, er Ítalinn Loris Malaguzzi ,en hann var kennari og sálfræðingur að mennt. Hann kom í heimsókn til Reggio Emilia á þeim tíma er verið var að koma fyrsta lýðræðisleikskólanum á koppinn. Hann var einn af sjálfboðaliðum hreyfingarinnar og tók þátt í byggingaframkvæmdinni. Þegar skólinn var tilbúinn var hann ráðinn ráðunautur skólans.

Hugmyndafræði Malaguzzi voru byggð á helstu kenningum þroskasálfræði tuttugustu aldar, sem hann þróaði áfram með rannsóknum og athugunum. Með eigin hugmyndafræði leitaði Malaguzzi m.a. í verkhyggjukenningu John Deweys, „learning by doing“, vitþroskakenningu Jean Piagets, sem grundvallast á því að „ný reynsla byggist alltaf á þeirri sem fyrir er“. Báðar kenningarnar leggja ríka áherslu á að barn sé ekki smækkuð mynd af fullorðnum, og barn á að fá að njóta bernsku sinnar, vera það barn sem það er á eigin forsendum. Börnin eiga að fá að dafna og blómstra í heimi hinna fullorðnu og þroskast í félagi við eldra og reyndari fólk.

Samkvæmt Malaguzzi á að líta á listina sem aðferð til að þroskast og nálgast viðfangsefni. Listgreinar eru samþættar starfi og leik, ekki á að kenna þær sem afmarkaða faggrein. Markmiðið er ekki að skapa framtíðarlistamenn heldur að opna augu barnsins fyrir fegurðinni sem í listinni býr, svo barnið megi njóta hennar sem best og verða skapandi virkur lífslistamaður. Hugmyndafræði Malaguzzi ber að líta á sem leiðarljós í uppeldisstarfi og hafa í huga að hún er „barn síns tíma“ eins og Vygotsky komst að orði, þ.e. síbreytileg og í stöðugri framþróun. Það kemur hins vegar fram í hugmyndafræði Malaguzzis, að ekki beri að líkja eftir henni gagnrýnislaust. Slíkt myndi ganga að öllu sköpunarstarfi og framþróun dauðum. Viðhorf, reynsla og þekking sem börn tileinka sér tekur ávallt mið af þeirri menningarleifð og samfélagsgerð sem þau búa við. Sú uppeldislega sýn sem Reggio Emilia byggist á er ábending um leiðir sem við getum farið. Í öllu uppeldisstarfi ber að hlúa að menningarverðmætum og aðlaga starfið að þeirri samfélagsmenningu sem barnið býr yfir. Hver skóli hefur sín séreinkenni en sá hugmyndafræðilegi grundvöllur er ávallt sá sami, þ.e. virkja auðlegð bernskunnar og málin hundrað með skapandi uppeldi og kennslu.

Hugmyndafræðin:

Barnið hefur hundarð mál en níutíu og níu eru frá þeim tekin...

Lykilhugmynd Reggio Emilia hugmyndafræðinnar er myndin af barninu sem frá fæðingu er upptekið af því að þróa samband sitt við umheiminn. Barnið beitir fjölbreyttum aðferðum til að upplifa hann, skilja og skynja á hundrað vegu. 

Skynjun tengir hluti saman. Það að syngja, tala, mála, dansa, teikna, uppgötva, rannsaka og íhuga og að komast að niðurstöðu í gegnum leik og sköpun er háð skynjunarhæfileikum hvers og eins. Þessa frumþætti ber að vernda, rækta og virkja með hverju barni. Í félagi við aðra lærir barn að endurskoða afstöðu sína og setja fram tilgátur. Barnið lærir að sjá tilfinningar sínar og skoðanir og að virða og hlusta á skoðanir annarra. Sjálfstjáning barnsins er ekki síður mikilvæg en hið talaða orð, því er brýnt að virkja skynfæri barnsins og gera því kleift að nýta hæfni sína til að skynja og skilja ólíka þætti tilveru sinnar. Athafnir og orð spretta upp af hugmyndum, framkvæmdum og á samhengi hlutanna – á hundrað vegu.

 

Skapandi efnisveita (REMIDA)

ReMida miðstöðin var stofnuð í Reggio Emilia á Ítalíu 2. desember 1996. Nafnið er sótt í söguna um Midas konung sem hafði fengið þá ósk sína uppfyllta að allt sem hann snerti breyttist í gull.

Hugmyndafræði ReMidu

Upphafið má rekja til þess að yfirvöld leikskólamála í Reggio Emilia, í samvinnu við ýmsar opinberar stofnanir og fyrirtæki, ákváðu að safna saman alls konar úreltum hlutum, efnisafgöngum og umbúðum til að nýta í skapandi starfi með börnum. Í leikskólunum í Reggio Emia nota börnin þessa afgangshluti til að útfæra hugmyndir sínar á fjölbreyttan og skapandi hátt í byggingar og listaverk.

Í leikskólanum Fögrubrekku erum við með Skapandi efnisveitu, en foreldar og starfsfólk koma með hluti sem börnin geta unnuð með upp á nýtt. Einnig höfum við fengið sent frá fyrirtækjum um hluti sem við  megum koma og sækja og nýta með börnunum.

 

  • Skapandi efnisveita er áskorun fyrir samfélagið og leikskólann í umhverfismálum, siðferði, menntun, fagurfræði og hagsýni.
  • Skapandi efnisveita byggist á þeirri grundvallarsýn að með samvirkni menningar og lista, skóla og frumkvöðla sé mögulegt að finna afgangshlutum nýja notkun og merkingu og þannig breyta þeim í auðlind. Slíkir hlutir geta t.d. verið óseldar birgðir, úrkast frá iðnaði og handverksframleiðslu, gallaðar vörur og hlutir sem álitnir eru einskins virði. Við notum ekki efni sem flokkast undir úrgang og efniviðurinn þarf að vera hreinn og laus við eiturefni.
  • Skapandi efnisveita leggur áherslu á frumkvæði og nýja framsýna leið til að tengja umhverfishyggjuna og sköpun nýrra hluta. Með nýtingu afgangshluta er stuðlað að nýjum tækifærum og virkjunar sköpunargáfu hjá börnunum, með það að leiðarljósi að virða umhverfi, mannfólk og hluti.
  • Helsta hlutverk Skapandi efnisveitu er að börnin geti náð sér í hluti sem þau vilja vinna með í sköpun sinni.

 

Með að vera með Skapandi efnisveitu innan leikskólans gefum við hlutum nýtt líf, sem annars væri jafnvel haugamatur.